Ronaldo baðst afsökunar

Cristiano Ronaldo slær José Ángel Crespo en það fór framhjá …
Cristiano Ronaldo slær José Ángel Crespo en það fór framhjá dómurum leiksins. AFP

Cristiano Ronaldo hefur beðist afsökunar á framkomu sinni í leik Real Madrid gegn Córdoba á útivelli í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu í gær.

Hann var rekinn af velli á 82. mínútu eftir að hafa sparkað í Edimar, leikmann Córdoba, og síðan slegið hann utanundir. Fyrr í leiknum slapp Portúgalinn við refsingu þegar hann sló annan varnarmann heimaliðsins, José Ángel Crespo.

„Ég bið alla afsökunar, og sérstaklega Edimar, fyrir hugsunarlausa framkomu mína í leiknum,“ sagði Ronaldo í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér.

Þetta er hans fjórða rauða spjald í spænsku 1. deildinni, það þriðja sem hann fær fyrir að slást við andstæðinga, og það níunda samtals á ferlinum.

Gareth Bale bjargaði honum fyrir horn með því að skora sigurmark Real, 2:1, úr vítaspyrnu á 89. mínútu leiksins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert