86 milljónir duga ekki fyrir Sverri

Nordsjælland vill fá Sverri Inga Ingason í sínar raðir.
Nordsjælland vill fá Sverri Inga Ingason í sínar raðir. mbl.is/Golli

Norska knattspyrnufélagið Viking hefur hafnað öðru boði frá danska félaginu Nordsjælland, þar sem Ólafur Kristjánsson er þjálfari, í miðvörðinn Sverri Inga Ingason.

Frá þessu greinir norska blaðið Aftenbladet. Það segir að Nordsjælland hafi fyrst boðið 3-4 milljónir norskra króna í Sverri, og svo komið með nýtt tilboð upp á tæplega 5 milljónir norskra króna, jafnvirði 86 milljóna íslenskra króna. Báðum tilboðum var hafnað.

Sverrir Ingi, sem er 21 árs og var fyrirliði U21-landsliðs Íslands í síðustu undankeppni EM, er með samning við Viking út tímabilið 2016. Hann á að baki tvo A-landsleiki, gegn Svíþjóð fyrir ári síðan og gegn Kanada fyrr í þessum mánuði.

Sverrir Ingi kom til Viking frá Breiðabliki í lok árs 2013 eftir tvö góð tímabil í Pepsi-deildinni, þar sem hann lék undir stjórn Ólafs Kristjánssonar sem nú vill fá kappann til Nordsjælland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert