Kolbeinn heldur kyrru fyrir

Kolbeinn Sigþórsson tekur við boltanum í leik gegn Feyenoord um …
Kolbeinn Sigþórsson tekur við boltanum í leik gegn Feyenoord um síðustu helgi. EPA

Kolbeinn Sigþórsson verður áfram í herbúðum Ajax, að minnsta kosti fram á sumar, og ætlar að hjálpa liðinu að landa fimmta meistaratitlinum í röð í hollensku úrvalsdeildinni.

Þetta segir Andri Sigþórsson, bróðir og umboðsmaður Kolbeins, við Ajax Showtime. Fyrr í þessum mánuði sagði Andri að best væri fyrir Kolbein að komast frá Ajax en nú er annað hljóð komið í strokkinn, þrátt fyrir að Kolbeinn hafi verið orðaður við félög á borð við Lille, QPR og Fenerbahce.

„Kolbeinn mun ekki fara frá Ajax þennan veturinn, það er alveg 100% öruggt. Hann vill leggja allt sitt í það að tryggja Ajax fimmta Hollandsmeistaratitilinn í röð. Það er það eina sem skiptir máli núna,“ sagði Andri.

Ajax Showtime segir að þar með geti Frank de Boer, þjálfari Ajax, andað léttar enda standi hans vilji til þess að halda Kolbeini sem hefur skorað 33 mörk í 99 leikjum fyrir Ajax í öllum keppnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert