Dönsk félög spyrjast fyrir um Aron

Aron Jóhannsson í leik á HM.
Aron Jóhannsson í leik á HM. AFP

Dönsk félög hafa áhuga á að fá Aron Jóhannsson til liðs við sig en Magnús Agnar Magnússon, umboðsmaður leikmannsins, segir ekki raunhæft að bandaríski lansdsliðsmaðurinn fari frá hollenska liðinu AZ Alkmaar í janúarglugganum.

Þetta kom fram í danska blaðinu Tipsbladet en blaðið segir að Aron sé ekki sáttur við sína stöðu hjá AZ Alkmaar en þessi fyrrverandi leikmaður danska liðsins AGF hefur ekki komið mikið við sögu með liði sínu á tímabilinu.

„Það hafa komið nokkrar fyrirspurnir frá Danmörku en hann er að koma til baka eftir aðgerð. Hann verður því að vera 100% ef eitthvað á að gerast í hans málum. Hann hefur verið óhress að sitja á bekknum eins og allir fótboltamenn eru, en Aron telur að hann verði að leggja hart að sér og sýna þar með að hann eigi að fá tækifæri til að spila. Auðvitað getur alltaf eitthvað gerst en ég tel samt ólíklegt að hann skipti um lið á þessum tíma,“ segir Magnús Agnar Magnússon í samtali við Tipsbladet.

Á síðustu leiktíð var Aron markahæsti leikmaður AZ Alkmaar með 17 mörk í 34 leikjum en á þessu tímabili hefur hann skorað 2 mörk í 9 leikjum.

Aron á að baki níu leiki með bandaríska A-landsliðinu og hefur í þeim skorað 2 mörk en hann lék með því á heimsmeistaramótinu í Brasilíu síðasta sumar. gummih@mbl.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert