Dró ranga kúlu og Malí úr leik

Fulltrúar þjóðanna draga um það hvor þeirra kæmist í 8-liða …
Fulltrúar þjóðanna draga um það hvor þeirra kæmist í 8-liða úrslitin. AFP

Gínea komst í dag áfram í 8 liða úrslit Afríkumótsins í knattspyrnu en hreinræktuð heppni hafði úrslitaáhrif varðandi það.

Gínea endaði með jafnmörg stig og Malí í 2.-3. sæti D-riðils, og nákvæmlega sömu markatölu. Liðin léku með Fílabeinsströndinni og Kamerún í riðli og fóru allir leikir riðilsins 1:1, fyrir utan leik Fílabeinsstrandarinnar og Kamerún í dag sem fyrrnefnda liðið vann 1:0.

Því þurfti að skera úr um hvort Gínea eða Malí fengi 2. sætið með því að draga um það. Boubacar Diarra, formaður knattspyrnusambands Malí, var fulltrúi þjóðarinnar þegar kom að því að draga en hann dró kúlu sem innihélt 3. sæti, og gat varla haldið aftur af tárunum. Amaro Dabo, fjármálastjóri íþróttaráðuneytis Gíneu, var öllu hressari eftir að hafa dregið kúluna sem fól í sér 2. sæti.

„Fótboltaguðirnir hafa brosað við Gíneu eftir langt og strangt ferðalag,“ sagði Dabo.

Það var síðast árið 1988 sem draga þurfti um hvaða lið kæmist áfram á mótinu en þá komst Alsír áfram á kostnað Fílabeinsstrandarinnar. Kallað hefur verið eftir breytingum á reglum mótsins vegna þessa á Afríkumótinu og bent á fyrirkomulag í öðrum mótum. Sem dæmi má nefna að á EM 2008, þegar Tyrkland og Tékkland hefðu getað endað hnífjöfn hefðu þau gert jafntefli í lokaleik riðlakeppninnar, hafði UEFA gefið út að úrslitin myndu ráðast í vítaspyrnukeppni ef þess þyrfti. Tyrkland vann hins vegar leikinn 3:2 og fór áfram.

Stuðningsmenn Gíneu streymdu út á götur til að fagna sætinu …
Stuðningsmenn Gíneu streymdu út á götur til að fagna sætinu í 8-liða úrslitum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert