Elmar hafnaði tveimur tilboðum

Theódór Elmar Bjarnason í landsleik.
Theódór Elmar Bjarnason í landsleik. mbl.is/Golli

Theódór Elmar Bjarnason, landsliðsmaður í knattspyrnu og leikmaður með Randers í dönsku úrvalsdeildinni, kveðst hafa hafnað tveimur tilboðum frá liðum utan Danmerkur á síðustu dögum.

Elmar hefur átt góðu gengi að fagna með Randers sem er í toppbaráttu í Danmörku. Samningur hans rennur út í sumar og hann hefur því frá áramótum getað rætt við önnur félög.

„Ég hef fengið tvö tilboð erlendis frá en hafnaði þeim báðum. Þetta voru fínustu tilboð en ég fer ekki frá Randers nema eitthvað virkilega spennandi sé í boði. Staða okkar í úrvalsdeildinni er þannig að það verður afar gaman að sjá hve langt við náum á þessu tímabil," sagði Elmar við Randers Amtsavis í dag.

Blaðið segir að forráðamenn Randers hafi ekki farið leynt með að þeir vilji halda Elmari í sínum röðum en nokkur tími sé liðinn síðan þeir hafi verið í sambandi við hann varðandi nýjan samning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert