Arnóri sagt að leita sér að nýju liði

Arnór Smárason í búningi Helsingborg.
Arnór Smárason í búningi Helsingborg. Ljósmynd/hif.se

Arnór Smárason leikmaður sænska úrvalsdeildarliðsins Helsingborg hefur fengið þau skilaboð frá forráðamönnum félagsins að leita sér að nýju liði. Ástæðan er sú að hann þykir of dýr.

Arnór gekk til liðs við Helsingborg sumarið 2013 og hefur skorað 5 mörk í 31 deildarleik með liðinu en nú lítur út fyrir að hann sé á förum frá liðinu sem sænska goðsögnin Henrik Larsson þjálfar.

„Eins og Henke hefur sjálfur sagt þá snýst þetta ekki um fótbolta heldur um fjárhaginn. Það er sorglegt en ég verð að sætta mig við stöðuna. Ég var svolítið hissa þegar hann sagði þetta. Félagið keypti mig og samdi við mig og ég á tvö ár eftir af samningi mínum,“ segir Arnór í viðtali við sænska blaðið Kvällsposten.

„Félagið hefur sagt að ég komi ekki til að spila verði ég áfram hjá því. Ég hef rætt við nokkur félög en mér finnst rétt að fara ekki bara í fyrsta lið sem vill fá mig,“ segir Arnór.

Mánaðarlaun Arnórs hjá Helsinborg nema um 100.000 sænskum krónum samkvæmt heimildum Kvällsposten en sú upphæð jafngildir tæpum 1,7 milljón íslenskra króna.

Að því er fram kemur í dönskum fjölmiðlum hafa nokkuð félög í dönsku úrvalsdeildinni áhuga á að fá Arnór til liðs við sig en hann lék með Esbjerg frá 2010-2013 áður en hann samdi við Helsingborg.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert