Ástralir Asíumeistarar í fyrsta sinn

Mathew Leckie sækir að Jang Hyun-soo í úrslitaleiknum í morgun.
Mathew Leckie sækir að Jang Hyun-soo í úrslitaleiknum í morgun. EPA

Ástralía varð í dag Asíumeistari í knattspyrnu eftir sigur á Suður Kóreu í úrslitaleik Asíumótsins í Sydney. Eftir framlengdan leik voru það Ástralir sem fögnuðu sigri, 2:1.

Massimo Luongo kom Áströlum yfir undir blálok fyrri hálfleiks eftir undirbúning Trent Sainsbury. Ekkert var í spilunum að Suður-Kórea kæmi til baka, en í uppbótartíma jafnaði Son Heung-Min metin og tryggði framlengingu. Staðan 1:1 að loknum venjulegum leiktíma.

Undir lok fyrri hálfleiks framlengingar var það svo James Troisi sem skoraði sigurmark Ástrala, lokatölur 2:1, og fögnuðu þeir sínum fyrsta sigri á þessu móti. Þeir töpuðu í úrslitaleik fyrir Japan á síðasta móti fyrir fjórum árum síðan, en Japanir hafa unnið þetta mót oftast eða fjórum sinnum.

Ástralía er að sjálfsögðu ekki hluti af Asíu því landið tilheyrir Eyjaálfu. Ástralir fengu hinsvegar leyfi til þess að yfirgefa Knattspyrnusamband Eyjaálfu og gerast meðlimir í Knattspyrnusambandi Asíu frá 1. janúar árið 2006. Ástralir sóttust eftir þessu, fyrst og fremst vegna þess að þeir fengu litla sem enga samkeppni í Eyjaálfu. Frá þeim tíma hafa Ástralir talist til Asíuþjóða í fótboltanum.

Þetta er í annað sinn sem Ástralir taka þátt í Asíukeppninni en þeir fengu silfurverðlaunin árið 2011 þegar þeir biðu lægri hlut fyrir Japönum, 1:0, í framlengdum úrslitaleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert