Hjörtur Logi samdi við Örebro

Hjörtur Logi Valgarðsson er orðinn leikmaður Örebro.
Hjörtur Logi Valgarðsson er orðinn leikmaður Örebro. Ljósmynd/Sogndal

Knattspyrnumaðurinn Hjörtur Logi Valgarðsson er genginn til liðs við Örebro í sænsku úrvalsdeildinni, en hann kemur til félagsins frá liði Sogndal í Noregi.

Hjörtur Logi er flestum hnútum kunnugur í Svíþjóð eftir að hafa leikið með liði Gautaborgar áður en hann gekk til liðs við Sogndal í fyrra. Hann verður annar íslenski leikmaðurinn í herbúðum Örebro, en fyrir er þar Eiður Aron Sigurbjörnsson. Hjörtur kemur til móts við nýju liðsfélaga sína í Portúgal þar sem liðið er í æfingaferð.

„Það verður gott að koma aftur til Svíþjóðar og tala sænsku á ný. Mér gekk vel í Noregi og fékk sjálfstraust sem mig vantaði þó liðinu hafi gengið illa. Það var mikilvægt fyrir mig að fá að spila reglulega,“ sagði Hjörtur Logi við heimasíðu Örebro, en liðið endaði í sjötta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. 

Hjörtur Logi er uppalinn í FH og á að baki níu leiki með A-landsliði Íslands og var með liðinu á Flórída fyrr í mánuðinum þar sem Ísland mætti Kanada í tveimur æfingaleikjum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert