Bjarni Þór hættur með Silkeborg

Bjarni Þór Viðarsson í leik með Silkeborg.
Bjarni Þór Viðarsson í leik með Silkeborg. Ljósmynd/Silkeborgif.com

Knattspyrnumaðurinn Bjarni Þór Viðarsson hefur komist að samkomulagi um að rifta samningi sínum við danska úrvalsdeildarliðið Silkeborg.

Bjarni Þór hefur verið í herbúðum Silkeborg frá árinu 2012 en hann kom til félagsins frá belgíska liðinu Mechelen.

„Ég er bara ánægður að vera orðinn laus frá félaginu. Það eru nokkrir möguleikar í stöðunni hjá mér en framhaldið er óljóst,“ sagði Bjarni Þór í samtali við mbl.is en hann er uppalinn FH-ingur og á fjölda leikja að baki með yngri landsliðum Íslands.

Bjarni Þór, sem er 26 ára gamall, lék 31 deildarleik með liðinu og skoraði þrjú mörk en Hafnfirðingurinn hefur aðeins komið við sögu í fjórum leikjum liðsins af 17 í deildinni á þessu tímabili.

„Við verðum að viðurkenna að hvorki félagið né Bjarni fékk það út úr samstarfi okkar sem við hefðum viljað fá. Það er því eðlilegt að leiðir okkar skilji núna. Við óskum Bjarna velgengni á ferli sínum,“ segir Jesper Stüker, íþróttastjóri Silkeborg, á vef félagsins en liðið er langneðst í deildinni með aðeins fjögur stig eftir 17 leiki.


 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert