Lukaku skoraði fimm af sjö - allt vitlaust í Hollandi

Lukaku fagnar markinu sínu í kvöld.
Lukaku fagnar markinu sínu í kvöld. AFP

Everton komst auðveldlega áfram í 16 liða úrslit Evrópudeildarinnar þegar liðið sigraði svissneska liðið Young Boys á heimavelli 3:1 en belgíski framherjinn í liði Everton, Romelu Lukaku skoraði tvívegis í kvöld fyrir liðið og skoraði því samtals fimm af sjö mörkum Everton í einvíginu.

Young Boys komust yfir með marki Sekou Sanogo á 13. mínútu leiksins en síðan ekki söguna meir. 

Á 25. mínútu jafnaði Lukaku úr vítaspyrnu og aðeins fimm mínútum síðar kom hann Everton yfir með skoti af stuttu færi, 2:1 en það var svo samlandi hans Kevin Mirallas sem kórónaði 3:1 og samtals 7:2 sigur Everton í einvíginu, rétt fyrir hálfleik eftir frábæran undirbúning Darrons Gibsons, 3:1 lokatölur.

Stoppa þurfti leik Feynoord og Roma í Hollandi eftir að hollenskar fótboltabullur köstuðu ýmsum hlutum inn á völlinn eins og uppblásnum banana í átt að Fílbeinsstrendingnum Gervinho sem svaraði að bragði með marki sem virðist ætla að skjóta Hollendingunum úr leik. Búast má við að félagið muni leika fyrir luktum dyrum í næstu leikjum liðsins.

Úrslit kvöldsins: (samtals)

2:3 Athletic Bilbao - Torino (4:5)
3:0 Club Brugge: AaB (6:1)
3:1 Everton - Young Boys (7:2)
2:2 Olympiakos - Dnipro (2:4)
1:0 Napoli - Trabzonspor (5:0)
0:0 Sporting Lissabon - Wolfsburg (0:2)
1:2 Feynoord - Roma (2:3)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert