Hallgrímur einbeittur fyrir Íslendingaslag

Hallgrímur Jónasson gekk til liðs við OB um áramót.
Hallgrímur Jónasson gekk til liðs við OB um áramót. mbl.is/Golli

Hallgrímur Jónasson leikur sinn annan leik fyrir danska liðið OB um helgina þegar liðið fær FC Kaupmannahöfn í heimsókn á sunnudag. Hallgrímur kom til OB nú í vetrarfríinu frá SönderjyskE, en tapaði 3:0 í sínum fyrsta leik um síðustu helgi.

„FCK er gott lið, en við vorum góðir gegn pressu Midtjylland í síðasta leik. Við fengum á okkur öll þrjú mörkin úr föstum leikatriðum sem er ekki nógu gott, en við höfum farið yfir það núna og ættum að vera miklu betri í þeim efnum gegn FC Kaupmannahöfn,“ sagði Hallgrímur við heimasíðu OB. Hann lagði áherslu á að liðið þyrfti að horfa til eigin frammistöðu.

„Við þurfum að fara inn í leikinn á okkar forsendum, leggja hart að okkur og einbeitingin verður að vera að okkar leik. Með því er ég viss um að við munum skapa okkur mörg færi, en við verðum að passa okkur á föstu leikatriðunum hjá þeim. Ég hlakka til að koma út á völlinn, það eru allir einbeittir að standa sig á heimavelli þar sem OB hefur tekið mörg stig upp á síðkastið,“ sagði Hallgrímur.

Leikurinn fer fram á sunnudag og um mikinn Íslendingaslag verður að ræða, en ásamt Hallgrími er Ari Freyr Skúlason á mála hjá OB. Hjá FC Kaupmannahöfn eru svo þeir Rúrik Gíslason og Björn Bergmann Sigurðarson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert