Segja bananakastið byggt á misskilningi

Dómarar leiksins fjarlægja uppblásna bananann sem kastað var í átt …
Dómarar leiksins fjarlægja uppblásna bananann sem kastað var í átt að Gervinho. EPA

Fátt er um meira rætt eftir leiki gærkvöldsins í Evrópudeildinni heldur en kynþáttaníð stuðningsmanna hollenska liðsins Feyenoord í garð Gervinho, leikmanns Roma, í sigri ítalska liðsins. Þeir virtust þá henda uppblásnum banana í átt að Fílabeinsstrendingnum þegar liðin mættust í Hollandi.

Fred Rutten, knattspyrnustjóri Feyenoord, segir það hins vegar af og frá að gjörningurinn hafi falið í sér kynþáttaníð. „Ég sé það ekki þannig. Við höfum marga leikmenn af mismunandi þjóðernum í okkar liði svo þetta stenst ekki. Það er gert of mikið úr þessu,“ sagði Rutten eftir leikinn, en forráðamenn félagsins segja að það sé hefð að uppblásnir bananar séu hafðir í stúkunni.

Leikurinn var stöðvaður í um fimmtán mínútur á meðan reynt var að róa stuðningsmennina sem köstuðu fleiru lauslegu inn á völlinn. Skemmst er að minnast fyrri leiks liðanna í Róm þar sem á annan tug þeirra handteknir eftir að hafa framið skemmdarverk á fornminjum. Fullvíst er að Feyenoord eigi von á refsingu frá Evrópska knattspyrnusambandinu.

Gervinho skoraði í leiknum og tryggði Roma áfram, en hann birti eftirfarandi tíst á Twitter-síðu sinni eftir leikinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert