Strákarnir fá landsliðsmann Króata til Kína

Sammir leggur vonandi upp nokkur mörk fyrir Viðar Örn Kjartansson.
Sammir leggur vonandi upp nokkur mörk fyrir Viðar Örn Kjartansson. Ljósmynd/saintyfc

Þeir Sölvi Geir Ottesen og Viðar Örn Kjartanson, leikmenn Jiangsu Sainty í Kína, hafa fengið liðsstyrk fyrir komandi átök í deildinni sem hefst í mars.

Félagið staðfesti í dag að samið hefði verið við Jorge Sammir til þriggja ára, en hann er landsliðsmaður Króatíu. Hann spilar sem framliggjandi miðjumaður lék síðast með Getafe á Spáni, en var áður lykilmaður í liði Dinamo Zagreb.

Sammir fór með Króatíu í lokakeppni HM í Brasilíu síðasta sumar og var í byrjunarliðinu í einum leik, en hann er einmitt fæddur í Brasilíu. Hann var hins vegar ekki í liðinu sem sló Íslendinga út í umspilinu og því líklega nokkuð ókunnur þeim Sölva og Viðari enn sem komið er.

Samkvæmt fréttum var lið Jiangsu Sainty einnig á höttunum eftir Brasilíumanninum Pato, sem lék lengi með AC Milan á Ítalíu, en nýjustu fregnir herma að það muni ekki ganga eftir þar sem félagið hefur nú fyllt leyfilegan kvóta hvað erlenda leikmenn varðar í sínu liði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert