Úrslitaleikur á Þorláksmessu úr sögunni

Blatter og félaga bíður mikið púsluspil að koma HM fyrir …
Blatter og félaga bíður mikið púsluspil að koma HM fyrir að vetri til. EPA

Sepp Blatter, forseti FIFA, hefur gefið það út að ef svo fer að heimsmeistaramótið í Katar fari fram að vetri til, þá verði því lokið í síðasta lagi 18. desember.

Áður hafði þeim möguleika verið velt upp að úrslitaleikurinn færi fram á Þorláksmessu, 23. desember, en Blatter hefur nú útilokað það. Hann segir síðasta mögulega daginn fyrir úrslitaleikin vera 18. desember, það mundi einfaldlega ekki ganga að láta mótið dragast lengur en það.

Félög á Englandi eru sögð áhyggjufull yfir HM að vetri til svo nálægt jólum því stór hluti sjónvarpstekna kemur einmitt inn á þeim tíma, þar sem spilað er þétt yfir hátíðarnar.

Hefð er fyrir því að úrslitaleikurinn sé spilaður á sunnudegi, og 18. desember árið 2022 fellur einmitt til á sunnudegi. Það er jafnframt þjóðhátíðardagur Katar. Lokaákvörðun verður tekin af FIFA um málið á fundi þann 20. mars næstkomandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert