Vidic horfir til Englands - Á leið til Liverpool?

Nemanja Vidic gæti verið á leið til Englands á ný.
Nemanja Vidic gæti verið á leið til Englands á ný. EPA

Nemanja Vidic, varnarmaður Inter, gæti snúið aftur til Englands eftir einungis eitt ár á Ítalíu, en þangað hélt hann í sumar eftir margra ára veru í herbúðum Manchester United.

Inter hefur samið við Felipe dal Belo, sem er talinn ætlaður sem arftaki Vidic, en áður höfðu sögur farið á kreik um að Serbinn sterki mundi yfirgefa herbúðir liðsins í sumar.

Ekki er þó búist við að hinn 33 ára gamli Vidic muni snúa aftur á Old Trafford, þar sem Louis van Gaal er sagður á eftir yngri mönnum á borð við Mats Hummels og Marquinhos. Hins vegar er orðrómur uppi um að erkifjendurnir í Liverpool hafi áhuga á þjónustu Vidic og er hann sjálfur talinn hafa frekar hug á því heldur en að fara til Tyrklands þar sem Besiktas er sagt hafa áhuga.

Vidic lék á sínum tíma 211 leiki á átta ára tímabili í ensku úrvalsdeildinni með United og þá á hann að baki 56 landsleiki fyrir Serbíu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert