Emil var arkitektinn að sigri Verona

Emil Hallfreðsson átti stórgóðan leik í dag.
Emil Hallfreðsson átti stórgóðan leik í dag. EPA

Emil Hallfreðsson var í stóru hlutverki þegar lið hans Hellas Verona vann sterkan útisigur á Cagliari, 2:1, í hörðum slag í neðri hluta ítölsku A-deildarinnar í knattspyrnu í dag.

Emil lagði upp bæði mörk Verona í leiknum, það fyrra fyrir Luca Toni strax á níundu mínútu og það síðara fyrir Juan Gomez þegar tíu mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Daniele Conti minnkaði muninn fyrir heimamenn í blálokin en lengra komust þeir ekki.

Emil lék að vanda allan leikinn fyrir Verona, en sigurinn fleytti þeim nokkuð frá fallsvæðinu, en liðið skaust upp um tvö sæti og er nú í því fjórtánda með 28 stig, átta stigum frá fallsæti.

Markið sem Emil lagði upp fyrir Luca Toni má sjá í myndbandinu hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert