Kristinn skoraði fyrir Columbus

Kristinn Steindórsson skoraði í gær.
Kristinn Steindórsson skoraði í gær. Ljósmynd/thecrew.com

Knattspyrnumaðurinn Kristinn Steindórsson skoraði fyrsta mark bandaríska liðsins Columbus Crew þegar það sigraði Oklahoma City Energy, 4:1, í leik um þriðja sætið á æfingamóti í Bradenton á Flórída í gærkvöld.

Kristinn skoraði markið eftir hálftíma leik en hann fylgdi þá á eftir þegar skot frá samherja hans var varið. Fyrri leiknum mótinu tapaði Columbus fyrir Philadelphia Union í vítaspyrnukeppni eftir 1:1 jafntefli.

Þetta voru síðustu verkefni Kristins og félaga áður en MLS-deildin hefst. Þar leikur Columbus Crew við Houston Dynamo á útivelli í Texas á sunnudaginn kemur, 8. mars. Kristinn gekk til liðs við bandaríska félagið í vetur eftir að hafa spilað með Halmstad í Svíþjóð undanfarin ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert