Leggið nafnið Bas Dost á minnið

Bas Dost.
Bas Dost. AFP

Bas Dost framherji Wolfsburg í efstu deild í Þýskalandi, hefur farið hamförum á leiktíðinni. Þessi hollenski framherji hefur nú skorað 14 mörk í níu leikjum fyrir Wolfsburg á tímabilinu en hann skoraði tvö mörk í átta marka leik gegn Werder Bremen um helgina.

Dost hefur nú skorað 11 mörk í sex leikjum liðsins á árinu 2015 og er það aðeins argentíski snillingurinn Lionel Messi sem hefur skorað fleiri mörk á árinu, 12 talsins í níu leikjum. 

Hinn 25 ára gamli Dost spilaði áður með hollenska félaginu Heerenveen frá 2010-2012 en Alfreð Finnbogason landsliðsmaður í knattspyrnu var fenginn sem arftaki hans árið 2012.

Dost er heldur betur að springa út hjá Wolfsburg og það er vert að leggja þetta nafn á minnið. Hann hefur ekki enn spilað fyrir A-landslið Hollands en mögulega munum við Íslendingar þurfa að etja kappi við hann 3. september næstkomandi þegar Ísland spilar við Holland í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert