Algarve-bikarinn hefur aldrei verið sterkari

Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari ásamt aðstoðarmönnum sínum á Algarve á síðasta …
Freyr Alexandersson landsliðsþjálfari ásamt aðstoðarmönnum sínum á Algarve á síðasta ári. Ljósmynd/KSÍ

Algarve-bikarinn í knattspyrnu kvenna sem hefst í Portúgal í dag verður sterkasta keppnin frá upphafi en hún er nú haldin 22. árið í röð.

Ísland er á meðal þátttökuliða níunda árið í röð og í ellefta skiptið samtals. Mótið hefur um árabil verið það sterkasta í heiminum ár hvert, fyrir utan Evrópu- og heimsmeistaramótin.

Ísland mætir Sviss í fyrsta leiknum í dag kl. 15, Noregi á föstudaginn, Bandaríkjunum á mánudaginn og síðan er leikið um sæti næsta miðvikudag. Þetta eru allt afar kunnuglegir andstæðingar. Ísland tapaði tvisvar fyrir Sviss í undankeppni HM en hefur ítrekað náð góðum úrslitum gegn Norðmönnum á undanförnum árum og oft staðið vel í hinu öfluga liði Bandaríkjanna.

Ellefu af liðunum tólf sem taka þátt í mótinu eru í hópi 20 efstu þjóða á heimslista FIFA. Hingað til hafa átta af bestu liðum tekið þátt og leikið í A- og B-riðlum, og spilað um verðlaunasætin en síðan hafa fjórar lakari þjóðir leikið í C-riðli og átt þess kost að komast í 7. sæti mótsins eftir úrslitaleiki við neðstu liðin í hinum tveimur riðlunum.

Allir riðlarnir sterkir

Nú hafa lið Brasilíu og Sviss bæst í hópinn, auk þess sem Frakkar eru með á ný, en þessi lið koma í stað Norður-Kóreu, Rússlands og Austurríkis sem voru í C-riðlinum, ásamt Portúgal í fyrra.

Liðin tólf leika áfram í þremur riðlum en nú er gerð sú breyting að þau geta öll unnið mótið og C-riðillinn er ekki lengur nokkurs konar B-keppni.

Þetta þýðir að ekki er lengur nóg að vinna sinn riðil til að leika til úrslita um gullverðlaunin. Sigurliðið í einum riðlanna þarf að sætta sig við að spila um bronsverðlaunin. Mótafyrirkomulagið er í flóknari kantinum að þessu sinni en á þennan hátt verður leikið um sæti á lokadegi mótsins, miðvikudaginn 11. mars:

1.-2. sæti – þau tvö lið sem vinna riðla og ná bestum árangri.

3.-4. sæti – liðið með lakastan árangur í efsta sæti mætir liðinu með bestan árangur í öðru sæti.

5.-6. sæti – liðin tvö með lakari árangur í öðru sæti riðlanna.

7.-8. sæti – liðin tvö með betri árangur í þriðja sæti riðlanna.

9.-10. sæti – liðið með lakastan árangur í þriðja sæti gegn liðinu með bestan árangur í fjórða sæti.

11.-12. sæti – liðin tvö með lakari árangur í fjórða sæti riðlanna.

Níu liðanna á leið á HM

Japanir eru ríkjandi heimsmeistarar og Þjóðverjar eru Evrópumeistarar. Níu þátttökuliðanna á mótinu eru á leið í lokakeppni HM í Kanada í sumar, öll nema Ísland, Danmörk og Portúgal.

Ísland náði sínum næstbesta árangri á mótinu í fyrra þegar liðið hreppti bronsverðlaunin eftir sigur á Svíum, 2:1. Árið 2011 fékk íslenska liðið silfurverðlaun þegar það tapaði 2:4 fyrir Bandaríkjunum í úrslitaleik.

Þýskaland vann Japan, 3:0, í úrslitaleiknum í fyrra. Bandaríkin hafa annars unnið mótið oftast, eða níu sinnum. Norðmenn fjórum sinum, Þjóðverjar þrisvar, Svíar þrisvar og Kínverjar tvisvar. Til viðbótar hafa Danmörk (5 sinnum), Japan (tvisvar) og Ísland komist í úrslitaleik mótsins og beðið lægri hlut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert