Líkt og fyrir fyrsta leik

Margrét Lára Viðarsdóttir.
Margrét Lára Viðarsdóttir. mbl.is/Golli

„Ég er tilbúin þegar kallið kemur. Tilfinningin er eins og þegar maður var að fara spila fyrsta leikinn sinn. Ég mun njóta þess í botn,“ sagði Margrét Lára Viðarsdóttir, markadrottning íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem í dag gæti spilað sinn fyrsta alvöru leik í tæpa 17 mánuði. Margrét er með landsliðinu í Portúgal þar sem það leikur gegn Sviss í fyrsta leik kl. 15 í dag í Algarve-bikarnum.

Margrét, sem er 28 ára, ól sitt fyrsta barn síðasta sumar. Hún bíður þess jafnframt að nýtt tímabil hefjist í sænsku úrvalsdeildinni eftir að hafa gengið á ný til liðs við Kristianstad sem hún yfirgaf haustið 2013 og því er ekki laust við að fiðringur sé komin í tærnar að spila alvöru leik.

„Ég er mjög spennt. Það er frábært að vera komin í landsliðshópinn aftur, gaman að hitta stelpurnar og taka þátt í þeirri sókn sem liðið hefur verið í,“ sagði Margrét.

„Ég stefndi alltaf að því að ná þessu móti og er mjög ánægð með að það hafi tekist. Mér fannst það mikilvægt að ég næði þessari 10 daga ferð með hópnum til að komast inn í hlutina. Það hefur margt breyst á síðustu misserum, komið nýtt þjálfarateymi með nýjar áherslur, og þó að ég hafi náð fyrstu tveimur leikjunum eftir að Freyr [Alexandersson, landsliðsþjálfari] tók við þá hefur margt gerst síðan þá,“ sagði Margrét. „Það er líka ekki til betri undirbúningur fyrir mig en að vera á þessu móti með bestu þjóðum heims, í frábæru veðri hér í Portúgal,“ bætti hún við, sjálfsagt meðvituð um veðurspá dagsins hér á landi!

Sjá allt viðtalið við Margréti Láru í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert