Mögnuð endurkoma Svía gegn Þjóðverjum

Luisa Wensing reynir að stöðva Sofiu Jakobsson í leiknum í …
Luisa Wensing reynir að stöðva Sofiu Jakobsson í leiknum í dag, en sú síðarnefnda skoraði tvö marka Svía. AFP

Svíþjóð sneri taflinu heldur betur við þegar liðið mætti Þjóðverjum í A-riðli Algarve-bikarsins í knattspyrnu í dag.

Það er óhætt að segja að Þýskaland hafi vart getað byrjað leikinn betur, en strax eftir fjögurra mínútna leik var staðan orðin 2:0 eftir mörk frá Dzsenifer Marozsan og Simone Laudehr. Caroline Seger minnkaði muninn fyrir Svíþjóð eftir hálftíma leik og staðan 2:1 í hálfleik.

Snemma í síðari hálfleiknum jafnaði Sofia Jacobsen metin fyrir Svíþjóð, sem lét þó ekki þar við sitja. Seger bætti sínu öðru marki við tuttugu mínútum fyrir leikslok og kom þeim yfir, áður en Jacobsen innsiglaði 4:2 sigur Svía með marki af stuttu færi fimm mínútum fyrir leikslok.

Í hinum leik riðilsins gerðu Kína og Brasilía markalaust jafntefli, og því eru Svíar á toppi riðilsins en Þjóðverjar á botninum eftir þessa fyrstu umferð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert