Strákarnir hans Helga á siglingu

Helgi Kolviðsson, fyrir miðju, ásamt þjálfarateymi sínu hjá Wiener Neustadt.
Helgi Kolviðsson, fyrir miðju, ásamt þjálfarateymi sínu hjá Wiener Neustadt. Ljósmynd/scwn.at

Lið Wiener Neustadt hefur heldur betur tekið við sér undir stjórn Helga Kolviðssonar í efstu deild austurrísku knattspyrnunnar og vann í gærkvöld afar mikilvægan útisigur á Grödig, 3:1.

Helgi, sem þjálfaði Austria Lustenau í B-deildinni í þrjú ár, tók við Wiener Neustadt rétt fyrir jól en þá var liðið í slæmri stöðu, eitt og yfirgefið á botni deildarinnar. Aðeins neðsta liðið fellur úr tíu liða efstu deildinni í Austurríki.

Með sigrinum á Grödig hefur Wiener Neustadt krækt í sjö stig í síðustu þremur leikjunum. Í fyrsta leik eftir áramót tapaði það 0:2 fyrir toppliði Salzburg en hefur síðan gert jafntefli, 3:3, við Sturm Graz á útivelli, vann gamla stórveldið Austria Vín 1:0 um síðstu helgi og lagði svo Grödig í gærkvöld.

Þar með er Grödig með 24 stig, Wiener Neustadt 22 og Admira 20 í þremur neðstu sætum deildarinnar. Wiener Neustadt mætir einmitt Admira í sannkölluðum botnslag um næstu helgi og þar fá lærisveinar Helga tækifæri til að koma sér í enn betri fjarlægð frá fallsætinu. Með tapi myndu þeir hinsvegar setjast í það á ný.

Helgi, sem er 43 ára og lék 30 landsleiki fyrir Íslands hönd, lék með Kópavogsliðunum ÍK og HK en var síðan atvinnumaður í Þýskalandi og Austurríki frá 1995. Hann hóf þjálfaraferilinn hjá Pfullendorf í Þýskalandi 2008 en tók síðan við Austria Lustenau 2011.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert