Ótrúlega sáttur hérna

Emil Hallfreðsson í leik með Helles Verona.
Emil Hallfreðsson í leik með Helles Verona. EPA


Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson hefur verið að gera það mjög gott með liði Hellas Verona í ítölsku A-deildinni á síðustu vikum.

Emil hefur lagt upp síðustu fjögur mörk liðsins í deildinni og um síðustu helgi skiptu sendingar Hafnfirðingsins sköpum þegar liðið vann sinn fyrsta sigur í fimm leikjum þegar það vann afar mikilvægan sigur gegn Cagliari.

Emil fékk mikið lof fyrir frammistöðu sína og var valinn í lið umferðarinnar hjá mörgum ítölskum fjölmiðlum.


„Persónulega þá hefur mér gengið vel og það er bara ánægjulegt en mestu máli skiptir þó að liðinu gangi vel,“ sagði Emil Hallfreðsson við Morgunblaðið í gær.

„Já, þetta var ansi mikilvægur sigur. Við vorum búnir að vera í smá veseni síðustu mánuðina en það er vonandi að með þessum sigri liggi leiðin nú upp á við hjá okkur. Ef eitthvað kallast sex stiga leikur þá var það þessi. Ef við hefðum tapað þá værum við aðeins tveimur stigum frá Cagliari sem er í fallsæti en nú munar fimm stigum á okkur,“ sagði Emil en Hellas Verona er í 15. sæti af 20 liðum í deildinni.

Emil Hallfreðsson
Emil Hallfreðsson mbl.is(Ómar Óskarsson


„Við vissum að það yrði erfitt að toppa síðasta tímabil. Við misstum frá okkur tvo lykilmenn sem áttu mjög gott tímabil í fyrra og breytingarnar fyrir tímabilið voru gríðarlega miklar. Það komu sextán nýir leikmenn og það hefur bara tekið sinn tíma að púsla þessu saman.“

Emil hefur verið í herbúðum Verona-liðsins frá árinu 2010 og hefur tekið þátt í ótrúlegum uppgangi með félaginu. Þegar Emil kom til liðsins var það í C-deildinni en það endaði í 10. sæti sem nýliði í A-deildinni á síðustu leiktíð.

„Ég held að ég sé sá eini úr byrjunarliðinu í dag sem er eftir í liðinu frá því ég kom til liðsins árið 2010. Ég er ótrúlega sáttur hérna. Þjálfarinn hefur gefið mér mikið og ég vonandi honum eitthvað til baka með spilamennsku minni. Ég á honum margt að þakka,“ segir Emil sem gerði nýjan samning við Verona fyrir tæpu ári. Hann er samningbundinn því til ársins 2017.

Sjá allt viðtalið við Emil í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert