Brassar skutu Svía niður á jörðina

Marta fagnar eftir að hafa komið Brasilíu yfir gegn Svíþjóð …
Marta fagnar eftir að hafa komið Brasilíu yfir gegn Svíþjóð í dag. AFP

Brasilía er í efsta sæti í C-riðli Algarve-bikars kvenna í knattspyrnu í Portúgal eftir sigur á Svíum, 2:0, í dag.

Segja má að þar með hafi sænska liðið verið skotið niður á jörðina en það vann Evrópumeistara Þýskalands, 4:2, í fyrstu umferðinni á mánudaginn.

Marta skoraði eftir 20 mínútna leik þegar hún skaut í stöngina og þaðan í bakið á Hedvig Lindahl markverði og í netið. Andressa Alves tryggði svo sigurinn með marki á 68. mínútu.

Eftir tvær umferðir í riðlinum er Brasilía með 4 stig, Svíþjóð 3, Þýskaland 3 og Kína 1 stig en Þjóðverjar unnu Kínverja, 2:0, fyrr í dag.

Í lokaumferðinni á mánudag leikur Brasilía við Þýskaland og Svíþjóð við Kína. Ekki er víst að sigur í riðlinum dugi til að spila um gullverðlaunin á mótinu. Riðlarnir eru þrír og það lið sem vinnur riðil með lökustum árangri í stigum verður að láta sér nægja að spila um bronsverðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert