Frakkar fóru illa með Dani

Camille Abily og Sanne Troelsgaard í leiknum í dag en …
Camille Abily og Sanne Troelsgaard í leiknum í dag en báðar skoruðu þær fyrir lið sín. AFP

Frakkar unnu afar sannfærandi sigur á Dönum, 4:1, í C-riðlinum í Algarve-bikar kvenna í knattspyrnu í dag og standa vel að vígi eftir tvær umferðir.

Danir, sem unnu óvæntan sigur á heimsmeisturum Japans í fyrsta leik, voru skotnir í kaf á upphafsmínútunum en staðan var 3:0 eftir þrettán mínútur og 4:0 í hálfleik. Eugenie Le Sommer, Camille Abily, Kenza Dali og Claire Lavogez skoruðu mörkin.

Sanne Troelsgaard náði að minnka muninn fyrir Dani þegar korter var eftir af leiknum.

Eftir tvær umferðir eru Frakkar með 6 stig, Danir 3, Japanir 3 en Portúgalar ekkert. Frakkar mæta Japan í lokaumferðinni og það er hreinn úrslitaleikur um sigur í riðlinum. Danir mæta Portúgal en eiga ekki möguleika á efsta sætinu vegna slæmrar markatölu eftir leikinn í dag. Innbyrðis úrslit ráða ef lið eru jöfn að stigum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert