Sú besta er úr leik

Nadine Kessler og Cristiano Ronaldo þegar þau voru valin besta …
Nadine Kessler og Cristiano Ronaldo þegar þau voru valin besta knattspyrnufólk Evrópu á síðasta ári. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nadine Kessler, besta knattspyrnukona heims og Evrópu á árinu 2014, er enn frá keppni síðan í haust og ljóst er að hún spilar ekkert með Evrópumeisturum Wolfsburg í Meistaradeildinni eða þýsku deildinni það sem eftir er tímabilsins.

Kessler lék frábærlega með Wolfsburg á síðasta ári og var í lykilhlutverki þegar liðið tryggði sér Evrópumeistaratitilinn með sigri á Tyresö, 4:3, í Lissabon. Hún var valin knattspyrnukona ársins í kjöri UEFA og Samtaka evrópskra íþróttamiðla í lok ágúst og knattspyrnukona ársins hjá FIFA í byrjun janúar.

Hún hefur aðeins náð að spila einn deildaleik með Wolfsburg í vetur og meiðsli hennar gera það að verkum að þátttaka hennar í heimsmeistaramótinu í Kanada í sumar með landsliði Þýskalands er í mikilli óvissu.

Kessler er 26 ára gömul og hefur verið í lykilhlutverki í uppgangi Wolfsburg undanfarin ár en hún er búin að vinna  bæði þýska meistaratitilinn og Meistaradeild Evrópu með liðinu undanfarin tvö ár.

Wolfsburg mætir sænsku meisturunum Rosengård, liði Söru Bjarkar Gunnarsdóttur, í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar síðar í þessum mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert