Þjóðverjar eiga enn von

Alexandra Popp skoraði seinna mark Þjóðverja.
Alexandra Popp skoraði seinna mark Þjóðverja. AFP

Þýsku Evrópumeistararnir í knattspyrnu kvenna sigruðu Kínverja, 2:0, í annarri umferð riðlakeppni Algarve-bikarsins í Portúgal í dag og eiga því enn möguleika á að spila um verðlaunasæti á mótinu.

Anja Mittag kom þýska liðinu yfir rétt fyrir hlé og Alexandra Popp tryggði sigurinn með góðu skallamarki á 76. mínútu.

Þýskaland tapaði fyrir Svíþjóð, 2:4, í fyrsta leiknum en eygir nú enn von um að vinna riðilinn og komast í úrslit um fyrsta eða þriðja sætið. Brasilía er yfir gegn Svíþjóð, 1:0, í hinum leik dagsins og riðillinn er því galopinn.

Heimsmeistararnir frá Japan, sem töpuðu óvænt fyrir Dönum í fyrstu umferð, unnu öruggan sigur á Portúgölum, 3:0, í dag og eru í sömu stöðu og Þjóðverjar. Yuri Kawamura, Kumi Yokoyama og Yuika Sugasawa skoruðu mörkin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert