Bað Ronaldo um ráð til að stöðva Bale

Gareth Bale.
Gareth Bale. AFP

Eli Guttman, landsliðsþjálfari Ísraels í knattspyrnu, sagði á blaðamannafundi fyrir leik liðsins gegn Wales í undankeppmi Evrópumótsins að hann hefði hringt í Cristiano Ronaldo, besta leikmann heims, og beðið um ráð hvernig stöðva mætti Gareth Bale.

Bale er samherji Ronaldo hjá Real Madrid og skærasta stjarna velska landsliðsins, en Guttman segir að þessi óvenjulega tilraun sín hafi ekki borið árangur og Ronaldo ekki viljað hjálpa. Hann ítrekaði þó að ekki yrði tekið harðar á Bale en öðrum mönnum.

„Þetta er liðsíþrótt og við erum ekki að fara að sparka Bale út úr leiknum. Við munum vitanlega reyna að loka á hann,“ sagði Guttman, en greinilegt er að hann er með Bale nánast á heilanum. Fyrir nokkrum vikum hóf hann sálfræðistríðið fyrir leikinn gegn Wales með því að segja að Bale hefði ekki staðið sig nægilega vel í síðustu leikjum. Strax á eftir skoraði hann hins vegar tvö mörk í næsta leik og virðist í fínu formi.

„Ég verð greinilega að bæta húmorinn hjá mér og eftir að ég sleppti orðinu skoraði hann tvö mörk, enda er hann frábær leikmaður.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert