Ég vil vinna Ísland aftur

Baurzhan Islamkhan í leik með landsliði Kasakstan.
Baurzhan Islamkhan í leik með landsliði Kasakstan. Ljósmynd/Veli Kavlak

Einn efnilegasti knattspyrnumaður Kasakstan í dag er miðjumaðurinn Baurzhan Islamkhan. Hann hefur reynslu af því að spila gegn íslensku landsliði og hefur þar haft betur. Hann vill endurtaka leikinn í Astana Arena á morgun.

„Við bíðum spenntir eftir leiknum og við vitum að flestir búast við því að mótherjarnir sigri. En við erum vel undirbúnir fyrir leikinn á morgun og erum búnir að æfa mikið og vel í vikunni og ég er viss um að við fáum mikið af áhorfendum á leikinn," sagði Islamkhan á fréttamannafundi á Astana Arena í kvöld.

Hann var í 21-árs landsliði Kasakstan sem vann Ísland, 3:2, á heimavelli í mars á síðasta ári, á þessum sama leikvangi, eftir að hafa tapað 2:0 á Kópavogsvelli haustið á undan. Islamkhan hefur verið í byrjunarliði í þremur af fjórum leikjum Kasaka í undankeppninni og á að baki 12 landsleiki þar sem hann hefur skorað 2 mörk. Miklar vonir eru  bundnar við þennan pilt sem kasaskir fréttamenn segja einn þann besta sem hafi komið fram í landinu.

„Við erum að fara að spila við erfiða mótherja en ég held að við getum unnið. Við sigruðum yngra landslið Íslands 3:2 í fyrra og mig langar til að endurtaka það," sagði Islamkhan sem er 22 ára gamall leikmaður Kairat frá Almaty, fyrrverandi höfuðborg landsins. Hann var á síðasta ári í röðum Kuban Krasnodar í Rússlandi en fékk ekki tækifæri með liðinu í úrvalsdeildinni og var lánaður til Astana hluta tímabilsins, þannig að þá var Astana Arena hans heimavöllur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert