„Ég fékk bara olnboga í smettið“

Sara Björk Gunnarsdóttir með grímuna í leiknum við Wolfsburg í …
Sara Björk Gunnarsdóttir með grímuna í leiknum við Wolfsburg í dag. Hún sækir hér að Babett Peter. AFP

Landsliðsfyrirliðinn Sara Björk Gunnarsdóttir og stöllur hennar í sænska meistaraliðinu Rosengård voru grátlega nálægt því að komast í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í dag. Liðið gerði þá 3:3 jafntefli á heimavelli við tvöfalda Evrópumeistara Wolfsburg, sem komust áfram á útivallarmarki en Sara skoraði eitt marka Rosengård.

„Ég get ekki sagt að mér líði vel núna, þetta er enn að síast inn fyrir mér. Við vorum mjög nálægt þessu og rosalega svekkjandi að detta svona út eftir að hafa unnið að þessu allt undirbúningstímabilið. Við vorum svo ótrúlega nálægt því að koma áfram, en við vorum nú ekki að spila við neitt lélegt lið,“ sagði Sara í samtali við mbl.is eftir leikinn í dag, skiljanlega svekkt en fyrri leikurinn í Þýskalandi fór 1:1.

„Við spiluðum mjög varnarlega í fyrri leiknum enda var það ætlunin og sækja svo hratt. Það var auðvitað svekkjandi að fá á sig mark þá en úrslitin voru fín fyrir seinni leikinn, 1:1, og ætluðum svo að klára þær á okkar heimavelli,“ sagði Sara, sem sjálf skoraði þriðja mark Rosengård í dag.

„Það kom bara alltof seint,“ sagði Sara, en á þriðju mínútu uppbótartímans fékk hún boltann utan teigs og skaut viðstöðulausu skoti í markið. Rosengård fékk eitt tækifæri í viðbót þegar liðið fékk hornspyrnu í blálokin en náði ekki að gera sér mat úr henni.

Leikmenn Rosengård fagna marki Önju Mittag. Sara er í bakgrunni.
Leikmenn Rosengård fagna marki Önju Mittag. Sara er í bakgrunni. AFP

Nefbrotnaði í fyrri leiknum

Sara Björk lék með myndarlega grímu í leiknum í dag, en hún nefbrotnaði í fyrri leiknum í Þýskalandi.

„Ég þurfti að vera með grímu samkvæmt skipun frá læknum. Það er ekki þægilegt að vera með þetta, en ef ég hefði fengið högg aftur gæti blætt meira inn á þetta og vesen,“ sagði Sara, sem fór þó ekki af velli við brotið í Þýskalandi heldur kláraði leikinn. Aðspurð hvernig höggið hefði verið stóð ekki á svari.

„Ég fékk bara olnboga í smettið,“ sagði Sara, sem segir óvíst hvað hún þurfi að vera með grímuna lengi í viðbót. „Bólgan er eiginlega farin en ég er ennþá mjög aum þar sem brotið er. Ég þarf því að vera með grímuna eitthvað lengur þangað til þetta er alveg gróið,“ sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í samtali við mbl.is í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert