Sara skoraði gegn meisturunum en er úr leik

Alexandra Popp fagnar öðru marki sínu af innlifun ásamt liðsfélögum …
Alexandra Popp fagnar öðru marki sínu af innlifun ásamt liðsfélögum sínum í dag. AFP

Sara Björk Gunnarsdóttir og lið hennar Rosengård er úr leik í Meistaradeild Evrópu þrátt fyrir jafntefli gegn Evrópumeisturum Wolfsburg, 3:3, í síðari leik liðanna í átta liða úrslitum keppninnar á heimavelli í dag. Fyrri leiknum í Þýskalandi lauk með 1:1 jafntefli og því fer Wolfsburg áfram á útivallarmarki.

Það blés ekki byrlega fyrir Rosengård í upphafi leiks í dag því strax á fimmtu mínútu komst þýska liðið yfir með marki Alexöndru Popp. Heimakonur voru hins vegar fljótar að átta sig og hin brasilíska Marta jafnaði metin eftir tæpan hálftíma áður en Anja Mittag kom sænska liðinu yfir skömmu fyrir hlé, staðan 2:1 í hálfleik.

Ekki voru nema tíu mínútur liðnar af síðari hálfleik þegar Babett Peter jafnaði metin fyrir Wolfsburg, og þýska liðið áfram á útivallarmörkum yrðu það lokatölur. Popp bætti hins vegar við sínu öðru marki fyrir þýska liðið og virtist því vera að gulltryggja sigurinn, 3:2.

Í uppbótartíma skoraði hins vegar Sara Björk og jafnaði metin í 3:3, en það dugði ekki til og því fara Evrópumeistararnir áfram á útivallarmarki.

Nýtt áhorfendamet var sett á kvennaleik í Malmö, en 5.748 áhorfendur voru á leiknum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert