Ekki tilbúinn að kljást við karlmenn

Martin Ödegaard.
Martin Ödegaard. EPA

Norska undrabarnið Martin Ödegaard varð í gær yngsti leikmaður sögunnar til þess að vera í byrjunarliði í undankeppni Evrópumótsins þegar Norðmenn steinlágu gegn Króötum, 5:1, í Zagreb. Ödegaard er aðeins 16 ára gamall og 102 dögum betur.

Ödegaard lék allan leikinn og var að mati Króatans Luka Modric besti leikmaður norska liðsins. „Hann býr yfir miklum hæfileikum og getur orðið stórstjarna,“ sagði Modric við norska fjölmiðla eftir leik en þeir félagar eru samherjar hjá Real Madrid.

Ekki eru þó allir sammála Króatanum um frammistöðu drengsins en Ödegaard varð fyrir mikilli gagnrýni á samfélagsmiðlum. Þá telur Tony Mahoney, pistlahöfundur vefmiðilsins Goal.com, að Norðmaðurinn hafi sýnt að hann sé engan veginn tilbúinn til þess að kljást við fullvaxta karlmenn.

Ödegaard er talinn einn efnilegasti leikmaður heims en hann skrifaði undir samning við Real Madrid fyrir nokkrum mánuðum eftir að hafa slegið í gegn í efstu deild Noregs með Strømsgodset.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert