Zidane vill taka við franska landsliðinu

Zinedine Zidane.
Zinedine Zidane. AFP

Franska knattspyrnugoðsögnin Zinedine Zidane sem nú þjálfar varalið Real Madrid segir það rökrétt að Madridingar hafi áhuga á að fá franska miðjumanninn Paul Pogba frá Juventus og þá segist kappinn einnig hafa mikinn áhuga á því að taka við stjórastarfi liðsins á næstu árum.

„Það er rökrétt fyrir Real Madrid að hafa áhuga á Pogba. Hann er mjög efnilegur og á enn eftir að bæta sig mikið. Hann er ungur og á fyrir höndum sér vænlega og spennandi framtíð,“ sagði Zidane við frönsku sjónvarpsstöðina Canal+.

Zidane viðurkenndi einnig að hann hefði áhuga á að taka við Madrid einn daginn.

„Auðvitað hefði ég áhuga en liðið hefur mjög góðan þjálfara núna. Ég hef tíma og á eftir að læra mikið. Ég byggði ekki feril minn sem knattspyrnumaður á tveimur árum,“ sagði Zidane sem vill þó eitt starf jafnvel enn meira heldur en þjálfarastarfið hjá Real Madrid.

„Ég ætla að segja þetta skýrt. Markmið mitt og metnaður minn liggur í því að verða þjálfari franska landsliðsins einn daginn. En ég hef nægan tíma,“ sagði Zidane.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert