Óvissa hjá Messi vegna meiðsla

Lionel Messi situr og horfir á félaga sína æfa fyrir …
Lionel Messi situr og horfir á félaga sína æfa fyrir leikinn gegn Ekvador. AFP

Óvíst er að Lionel Messi geti spilað með Barcelona gegn Celta Vigo í spænsku 1. deildinni í knattspyrnu um næstu helgi en hann varð að sleppa landsleikjum Argentínu gegn Ekvador og El Salvador um helgina og í gær vegna meiðsla.

Messi meiddist á tá í leiknum gegn Manchester City í Meistaradeild Evrópu á dögunum. Hann spilaði samt allan tímann gegn Real Madrid þrátt  fyrir umtalsverðan sársauka, samkvæmt frétt spænsku útvarpsstöðvarinnar Cope. 

Hann kom síðan til móts við argentínska landsliðið í Washington fyrir leikina tvo en þá leiddi læknisskoðun í ljós að ekki væri um alvarleg meiðsli að ræða. Fóturinn hefði eftir sem áður verið aumur.

Tata Martino, landsliðsþjálfari Argentínu, sagði á vef knattspyrnusambandsins að Messi hefði bara versnað dag frá degi á meðan landsliðshópurinn var saman.

„Hann æfði af fullum krafti fyrsta daginn, hann var í vandræðum næsta dag og þann þriðja gat hann varla reimað á sig fótboltaskóna. Við biðum fram á síðustu stundu með að taka ákvörðun um hvort hann myndi spila. Það gekk ekki. Ég bið alla afsökunar sem komu sérstaklega á leikina til að sjá hann spila," sagði Martino.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert