Hólmar Örn lagði upp í metleik

Hólmar Örn Eyjólfsson.
Hólmar Örn Eyjólfsson.

Eftir frábæra byrjun í fyrstu tveimur leikjum sínum þurftu Hólmar Örn Eyjólfsson og félagar í Rosenborg að sætta sig við 1:1 jafntefli í leik sínum gegn Strömsgodset í efstu deild norsku knattspyrnunnar í dag. Þeir settu þó met með því að skora í leiknum en Hólmar Örn lagði upp mark þeirra.

Rosenborg vann fyrstu tvo leikina í deildinni 5:0 og 6:0 og þurfti því aðeins að skora eitt mark til þess að setja met með því að skora 12 mörk í fyrstu þremur umferðum deildarinnar og það tókst þeim að gera strax á 6. mínútu með marki Tobias Mikkelsen.

Hinn 37 ára gamli Peter Kovacs jafnaði hins vegar metin á 79. mínútu. Hólmar Örn spilaði allan leikinn.

Rosenborg heldur þó topppsætinu og hefur sjö stig, jafn mörg og Vålerenga í 2. sætinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert