Solbakken kyrr í Köben

Ståle Solbakken, til hægri, fyrir leik með FCK í Meistaradeild …
Ståle Solbakken, til hægri, fyrir leik með FCK í Meistaradeild Evrópu. AFP

Norðmaðurinn Ståle Solbakken hefur framlengt samning sinn við danska félagið FC Köbenhavn og verður áfram knattspyrnustjóri þess til ársins 2018.

Solbakken, sem er 47 ára gamall og lék 58 landsleiki fyrir Noreg, kom fyrst til FCK árið 2006 og var aðalþjálfari félagsins í fimm ár. Hann fór þaðan til Köln í Þýskalandi og Wolves á Englandi en var sagt upp á báðum stöðum. Solbakken sneri aftur til Kaupmannahafnar árið 2013 og tók við sínu gamla starfi, og í fyrra var starfið útvíkkað og hann gerður að knattspyrnustjóra. 

„Við höfum þegar náð langt og ég er viss um að við eigum eftir að styrkjast enn frekar. Ég hef algjörlega helgað mig FCK og því fólki sem ég vinn þar með dags daglega. Við höfum lagt saman grunninn að því sem ég tel vera mjög spennandi framtíð fyrir alla í og í kringum félagið," sagði Solbakken við vef FCK.

Rúrik Gíslason er leikmaður FCK, sem keypti hann af OB árið 2012, og í vetur fékk félagið Björn Bergmann Sigurðarson lánaðan frá Wolves.

FCK varð danskur meistari undir stjórn Norðmannsins 2007, 2009, 2010 og 2011 en náði ekki að verja titilinn í fyrra, eftir að hann sneri aftur til félagsins og allt bendir til þess að annað sætið verði aftur hlutskipti liðsins í ár. Midtjylland er með fjórtán stiga forystu á FCK þegar liðin eiga átta og níu leiki eftir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert