Rýr uppskera í Noregi

Rúnar Kristinsson þjálfari Lilleström í Noregi.
Rúnar Kristinsson þjálfari Lilleström í Noregi. Eva Björk Ægisdóttir

Uppskera Íslendinganna í efstu deild norska fótboltans var rýr í dag þegar fimm leikir fóru fram. Eina stigið kom hjá Rúnari Kristinssyni og lærisveinum hans hjá Lilleström í Noregi en þeir gerðu jafntefli gegn Trömsö á útivelli, 1:1.

Lilleström hefur tvö stig þrátt fyrir þrjú jafntefli þar sem dregið var af þeim 1 stig vegna fjárhagsvandræða félagsins. Liðið er í 11. sætinu.

Finnur Orri Margeirsson spilaði allan leikinn fyrir Lilleström en Árni Vilhjálmsson hóf leikinn á bekknum en kom inn á eftir aðeins 9. mínútna leik.

Íslendingaliðið Viking tapaði 1:0 gegn Stabæk á útivelli en Indriði Sigurðsson og Jón Daði Böðvarsson hófu báðir leik hjá Viking. Steinþór Árni Þorsteinsson kom inn á fyrir Jón Daða á 65. mínútu en Indriði fór af velli eftir 55 mínútur. Viking er í 10. sætinu með þrjú stig.

Þá vann Molde stórsigur á Álasundi, 5:1. Daníel Leó Grétarsson var allan tímann á varamannabekk Álasunds og Aron Elís Þrándarson var ekki í leikmannahópi liðsins. Álasund er í 15. sæti með eitt stig.

Hannes Þór Halldórsson spilaði svo allan leikinn fyrir Sandnes Ulf í B-deildinni en lið hans lagði Nest Sotra 3:1 á heimavelli. Sandnes Ulf hefur sjö stig í 4. sætinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert