Victor og félagar taplausir

Guðlaugur Victor Pálsson hreinsar frá marki Helsingborg í leiknum í …
Guðlaugur Victor Pálsson hreinsar frá marki Helsingborg í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Elíson

Guðlaugur Victor Pálsson og samherjar hans í Helsingborg eru áfram taplausir í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir góðan sigur á Norrköping, 3:1, á heimavelli í kvöld.

Victor lék allan leikinn í vörn Helsingborg og átti góðan leik en Arnór Ingvi Traustason og félagar í Norrköping náðu sér aldrei á strik og áttu ekki möguleika eftir að Helsingborg var komið í 3:0 í byrjun síðari hálfleiks. Arnór lék allan leikinn.

Helsingborg er með 8 stig eftir fyrstu fjóra leikina og er eitt fjögurra taplausra liða í deildinni. Norrköping er í tólfta sæti af sextán liðum með 4 stig.

Nýliðar Sundsvall unnu góðan útisigur á Örebro, 3:1, og hafa 7 stig eftir fjóra leiki í 8. sæti deildarinnar. Jón Guðni Fjóluson lék allan leikinn í vörn Sundsvall en Rúnar Már Sigurjónsson kom inná á 86. mínútu. Eiður Aron Sigurbjörnsson og Hjörtur Logi Valgarðsson léku allan tímann í vörn Örebro sem er neðst í deildinni með aðeins eitt stig.

Nýliðar Hammarby töpuðu sínum fyrsta leik, 3:1 fyrir meisturum Malmö á útivelli. Birkir Már Sævarsson lék allan leikinn með  Hammarby sem er með 7 stig í sjöunda sætinu.

Malmö er með 10 stig á toppi deildarinnar, IFK Gautaborg er með 9 og Helsingborg 8 í þriðja sætinu. Elfsborg og AIK eru bæði taplaus með 7 stig og mætast annað kvöld.

Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Ingvi Traustason heilsast fyrir leik …
Guðlaugur Victor Pálsson og Arnór Ingvi Traustason heilsast fyrir leik Helsingborg og Norrköping í kvöld. Ljósmynd/Gunnar Elíson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert