Vildu meina að ég væri ruglaður

Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur átt fast sæti í byrjunarliði Örebro …
Eiður Aron Sigurbjörnsson hefur átt fast sæti í byrjunarliði Örebro á leiktíðinni eftir að hafa snúið aftur til félagsins. Ljósmynd/oskfotboll.se

„Ég klikkaði aðeins í þessu marki og þegar boltinn rúllaði yfir línuna þá sá ég bara rautt í smástund og tók reiðina út með þessum hætti,“ sagði knattspyrnumaðurinn Eiður Aron Sigurbjörnsson en myndband sem sýnir hann skalla þverslá í leik í sænsku úrvalsdeildinni gengur sem eldur í sinu um netheima.

Vefmiðlar um allan heim hafa fjallað um atvikið en Eiður stökk upp og skallaði þverslána eftir að lið hans Örebro fékk á sig mark í 3:1-tapi gegn Sundsvall. Daily Mirror segir meðal annars að Eyjamanninum líki ekki frekar en öðrum að fá á sig mark, en að hann bregðist allt öðruvísi við en allir aðrir. Annars staðar er viðbrögðum Eiðs lýst sem hálfbrjálæðislegum, og sumir velta vöngum yfir því hvort höggið hafi ekki verið mikið fyrir kappann.

„Nei, nei, þetta var ekki vont þó þetta hafi litið út fyrir að vera það kannski en hausinn var í góðu lagi seinna um kvöldið og daginn eftir,“ sagði Eiður við mbl.is. Hann viðurkennir að liðsfélagarnir hafi komið með létt skot á sig.

„Það var aðeins hlegið að manni þegar ég mætti á æfingu í dag og menn að meina að ég væri eitthvað ruglaður,“ sagði Eiður léttur.

Örebro hefur farið illa af stað í sænsku úrvalsdeildinni og er á botninum með eitt stig eftir fjóra leiki. Eiður segir þó algjöran óþarfa að örvænta.

„Byrjunin hjá mér persónulega hefur verið þokkaleg finnst mér, en mér finnst eins og ég geti gert betur þannig að það kemur vonandi í næstu leikjum. Gengi liðsins aftur á móti hefur ekkert verið neitt sérstakt í deildinni, 1 stig eftir 4 leiki er náttúrlega ekki það sem við ætluðum okkur en það eru 26 umferðir eftir þannig að það er ekkert „panik“ hjá okkur,“ sagði Eiður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert