Dagný og Bayern standa vel að vígi

Dagný Brynjarsdóttir og Stephanie Bunte í leik Bayern og Wolfsburg …
Dagný Brynjarsdóttir og Stephanie Bunte í leik Bayern og Wolfsburg í vetur. Ljósmynd/fcb-frauenfussball.de

Dagný Brynjarsdóttir landsliðskona í knattspyrnu á góða möguleika á að hampa meistaratitlinum í Þýskalandi með Bayern München eftir auðveldan sigur liðsins á Herforder, 6:0, á útivelli í gær.

Dagný lék fyrstu 65 mínúturnar með Bayern sem er einu stigi á eftir Evrópumeisturum Wolfsburg og einu á undan Frankfurt fyrir lokaumferðina, sem verður greinilega æsispennandi. Wolfsburg er með 54 stig, Bayern 53 og Frankfurt 52. Þar á eftir er svo Turbine Potsdam með 45 stig.

Frankfurt mætir Wolfsburg, og takist Wolfsburg ekki að vinna leikinn, verður Bayern meistari með því að sigra Essen á heimavelli, en Essen er í fimmta sæti deildarinnar með 28 stig.

Mikið er í húfi fyrir Frankfurt, því með sigri myndi liðið komast uppfyrir Wolfsburg, ná silfurverðlaununum og sæti í Meistaradeild Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert