„Þetta er áfall“

Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, (t.v.) mun leita eftir leiðsögn …
Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, (t.v.) mun leita eftir leiðsögn og forystu Michel Platini, forseta UEFA, á fundi sem fram fer í Zürich í Sviss á morgun. Hér sjást þeir saman þegar Platini heimsótti Ísland árið 2010. mbl.is/Golli

„Manni er náttúrulega brugðið við þessi tíðindi vegna þess að eftir umræðu síðustu ára þá er ljóst að þetta er mjög alvarlegt,“ segir Geir Þorsteinsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, í samtali við mbl.is, spurður um aðgerðir lögreglu vegna ásakana um spillingu innan Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA).

Geir bætir við, að þetta hafi Knattspyrnusamband Evrópu (UEFA) kallað eftir, þ.e. að þessum málum yrði fylgt eftir. „Nú er þetta komið á enn alvarlegra stig þegar menn sæta framsali frá Sviss til Bandaríkjanna. Þetta er áfall,“ segir hann ennfremur og bætir við að málið verði rætt með forsvarsmönnum UEFA á morgun.

Tvær lögreglurannsóknir eru nú í gangi sem beinast gegn spillingu innan FIFA. Sjö hátt settir embættismenn sambandsins voru handteknir í Zürich í Sviss. Sepp Blatter, forseti FIFA, er ekki á meðal þeirra. 

Alls eru 14 ákærðir fyrir spillingu í málinu að sögn bandaríska dómsmálaráðuneytisins. Svissnesk yfirvöld hafa einnig hafið rannsókn sem beinast að ákvörðun um að halda HM í knattspyrnu í Rússlandi árið 2018 og í Katar fjórum árum síðar.

Þarf að hreinsa út spillingu sem skaðar ímynd knattspyrnunnar

Spurður almennt út í þær ásakanir sem hafa komið fram á undanförnum árum um spillingu innan FIFA og víðar segir Geir að þær eigi sér langa sögu: „Það þarf náttúrulega að hreinsa þetta út úr knattspyrnuheiminum. Þær upplýsingar sem ég hef núna beinast að ákveðnum heimsálfum, því miður,“ segir hann og bætir við að það verði að koma skikki á þessi mál þannig að þau haldi ekki áfram að skaða ímynd knattspyrnunnar í heiminum.

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) framkvæmdi m.a. húsleit í höfuðstöðvum CONCACAF, sem er knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku, í tengslum við rannsókn málsins í Miami í dag.

Geir er nýkominn til Zürich til að vera viðstaddur þing FIFA þar sem forseti þess verður kjörin. Blatter sækist eftir endurkjöri, en hann hefur verið forseti sambandsins frá árinu 1998. Mótframbjóðandi hans er jórdanski prinsinn, Ali bin al-Hussein.

Flest benti til þess að Blatter yrði endurkjörinn en nú er spurning hvaða áhrif lögreglurannsóknin hefur á stöðu hans. Hann greindi hins vegar frá því í dag að hann muni ekki stíga af stóli vegna málsins. Þá segir FIFA að kosningin muni fara fram á föstudag eins og til stóð.

KSÍ fylgir stefnu UEFA varðandi forsetakjörið

Geir segir að UEFA muni halda fund í Zürich á morgun til að ræða stöðuna. „Ég hef því ekki fengið neinar nánari upplýsingar um þetta. Þær upplýsingar sem ég hef er úr fjölmiðlum á þessari stundu,“ segir Geir og bætir við að menn velti nú fyrir sér hvort kosningarnar eða þingið fari nú fram.

Spurður út í hver sé afstaða KSÍ gagnvart Blatter, tekur Geir fram að KSÍ fylgi stefnu UEFA. Hann tekur fram að KSÍ sé ekki sérstakur stuðningsmaður Blatters. Hann bendir á að árið 1998, árið sem Blatter var fyrst kjörinn forseti FIFA, þá hafi Ísland verið framarlega í flokki í að vinna að kjöri Svíans Lennart Johansson, sem var þáverandi forseti UEFA. „Við urðum undir í því kjöri. Síðan hefur Blatter verið endurkjörinn án mótframboðs eða með mótframbjóðanda sem hefur ekki haft möguleika í kjörið,“ segir Geir. 

Árið 2011 studdi KSÍ Blatter í forsetastólinn, en það var gert eftir áskorun UEFA. „Stjórn evrópska knattspyrnusambandsins ákvað að lýsa áfram stuðningi við Sepp Blatter og hvatti aðildarsambönd til að gera það. Við höfum farið að áskorun sambandsins að styðja Sepp Blatter áfram,“ sagði í samtali við Morgunblaðið í maí 2011.

Geir bendir á, að mótframbjóðandi Blatters fyrir fjórum árum hafi verið Mohames Bin Hammam frá Katar. Hann hafi hins vegar orðið að draga framboð sitt til baka vegna spillingarmála. Var Blatter því sjálfkjörinn á þinginu. 

Leita eftir leiðsögn Platini

„Platini [forseti UEFA] hefur sagt að Evrópu hafi staðið með honum [Blatter] vegna þess að hann lofaði þetta yrði hans síðasta tímabil. Svo hefur hann tilkynnt núna - eftir síðasta árið - að honum hefði snúist hugur, að hann ætlaði að halda áfram, og það hefur skapað mikla úlfúð og andstöðu í Evrópu,“ segir Geir. Platini hafi t.a.m. gagnrýnt Blatter harðlega og sakað hann um ósannindi.

„Við göngum til fundar á morgun og leitum eftir leiðsögn og forystu Platini og Knattspyrnusambands Evrópu í framhaldinu í þessum málum,“ segir Geir að lokum. 

Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998.
Sepp Blatter hefur verið forseti FIFA frá árinu 1998. AFP
FIFA hélt blaðamannafund í dag vegna málsins, en þar kom …
FIFA hélt blaðamannafund í dag vegna málsins, en þar kom fram að Blatter væri ekki á meðal þeirra sem rannsóknina beindist að. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert