Rannsóknin beinist ekki að Blatter

Sepp Blatter hefur starfað hjá FIFA í 40 ár og …
Sepp Blatter hefur starfað hjá FIFA í 40 ár og verið forseti sambandsins frá 1998. AFP

Sepp Blatter, forseti Alþjóðaknattspyrnusambandsins (FIFA) og Jerome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, tengjast ekki rannsókn lögreglunnar á spillingarmálum innan sambandsins. Frá þessu var greint á blaðamannafundi í morgun. Blatter, sem er ekki óumdeildur, sækist nú eftir sínu fimmta kjörtímabili.

„Framkvæmdastjórinn og forsetinn tengjast þessu ekki,“ sagði Walter De Gregoria, talsmaður FIFA, á blaðamannafundi sem var boðaður með hraði í dag.

Hann sagði ennfremur að forsetakjör til næstu fjögurra ára muni fara fram á föstudag eins og til stóð í Zürich í Sviss.

Hinn 79 ára gamli Blatter, sem hefur starfað hjá sambandinu í 40 ár, hefur oft verið harðlega gagnrýndur en hann er einnig dáður - hefur m.a. verið borinn saman við sjálfan Jesú Krist. Fáir búast við öðru en að hann verði endurkjörinn forseti sambandsins í kosningu sem fer fram á föstudag, en ljóst er að hneykslismálið hefur varpað stóru skugga á FIFA og íþróttina. 

„Í þau 40 ár sem ég hef verið hjá FIFA þá hef ég lært að lifa með fjandskap og andúð,“ sagði Blatter nýverið.

„Eins og þýski málshátturinn segir: „Samúð er ókeypis en öfund er áunnin“,“ sagði Blatter ennfremur. 

Á meðal valdamestu manna í heimi

Í samantekt AFP-fréttastofunnar segir, að það sé margt að öfunda. Hann hefur verið forseti FIFA í 17 ár og það hefur komið honum í sjötugasta sæti á lista viðskiptatímaritsins Forbes yfir valdamesta fólk í heimi. Hann er eini yfirmaður íþróttasambands á listanum, þar sem er að finna þjóðarleiðtoga á borð við Barack Obama, forseta Bandaríkjanna, og Vladimír Pútín Rússlandsforseta. 

Blatter fæddist 10. mars árið 1936 í Visp í Sviss. Hann stundaði nám við Saint-Maurice í heimalandinu áður en hann útskrifaðist með gráðu í viðskipta- og hagfræði frá háskólanum í Lausanne. Hann hefur unnið ýmis störf, m.a. verið yfirmaður samskipta hjá ferðamálaráði Valais í Sviss og þá hefur hann verið framkvæmdastjóri svissneska íshokkísambandsins. Þá kom hann að skipulagningu Ólympíuleikanna árið 1972 og 1976. Hann hefur kvænst þrisvar sinnum og á eina dóttur.

Hann spilaði knattspyrnu sem áhugamaður á sínum yngri árum en gekk til liðs við FIFA árið 1975, en þar á undan starfaði hann við að markaðssetja svissnesk úr. 

Hann varð framkvæmdastjóri FIFA árið 1981 og árið 1998 var hann kjörinn forseti sambandsins þegar forveri hans, Brasilíumaðurinn Joao Havelange lét af störfum eftir 24 ár, sem var einnig mjög umdeildur í embætti. 

FIFA gjörbreyst á 40 árum

Þegar Blatter hóf störf hjá FIFA voru höfuðstöðvarnar í lítilli bygggingu í Zürich í Sviss. Starfsmenn voru þá um 10 talsins. Sagan segir að það hafi verið Blatter sem hafi gert sér ferð í bankann til að slá lán þegar ekki var hægt að greiða starfsmönnunum laun. 

Staðan hefur gjörbreyst í dag, en FIFA hagnaðist um 5,7 milljarða dala, sem samsvarar um 770 milljörðum króna, á milli heimsmeistaramótanna í knattspyrnu sem voru haldin árið 2010 og 2014.

Nú starfa um 1.400 manns hjá FIFA og eigið fé sambandsins nemur um 1,5 milljörðum dala, sem samsvarar um 200 milljörðum króna. Er það nóg til að greiða alla reikninga verði hætt við næsta heimsmeistaramót.

Blatter, sem er sagður vera vinnufíkill, hefur sagt að hans helsta markmið sé að gera knattspyrnu að alþjóðlegri íþrótt. Í hans tíð hefur HM í knattspyrnu verið haldið í Asíu og Afríku, eða í Suður-Kóreu og Japan árið 2002, og í Suður-Afríku árið 2010.

FIFA greiðir knattspyrnusamböndum um allan heim mörg hundruð milljónir dala í formi styrkja og framlaga. 

Ásakanir um spillingu hafa reglulega heyrst

Frá því Blatter tók við sem forseti FIFA hafa ásakanir um spillingu innan FIFA heyrst reglulega. Nú nýlega vegna ákvörðunar um að halda HM í knattspyrnu árið 2018 í Rússlandi og fjórum árum síðar í Katar.

Blatter hefur hins vegar aldrei verið bendlaður með beinum hætti við glæpsamleg athæfi og hann hefur oftast verið lítið að kippa sér upp við slíkar ásakanir. Árið 2006 reyndi hann aftur á móti að koma í veg fyrir útgáfu bókar í Sviss sem fjallaði um FIFA.

Sem fyrr segir, þá er Blatter ekki óumdeildur maður. Þó að margir hafi gagnrýnd hann þá þá sumir hafið hann til skýjanna. Osiris Guzman, forseti Knattspyrnusambands Dómíníska lýðveldisins, líkti í síðasta mánuði Blatter við Jesú Krist, Winston Churchill, Móses, Abraham Lincoln og Martin Luther King. Þá hefur CONCACAF, sem er knattspyrnusamband Norður- og Mið-Ameríku, lýst yfir stuðningi við Blatter. 

Knattspyrnusambönd í Asíu og Afríku hafa sömuleiðis lýst yfir stuðningi við Blatter gegn mótframbjóðanda hans, sem er jórdanski prinsinn, Ali bin al-Hussein.

Nýtur ekki stuðnings í Evrópu

Evrópa hefur aftur á móti snúið bakinu gegn Blatter. Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, hefur sakað Blatter um að segja ósatt þegar hann sagði árið 2011 að hann ætlaði að stíga til hliðar að loknu núverandi kjörtímabili. 

Platini segir að Blatter hafi tekið nokkrar góðar ákvarðanir, og oft við erfiðar aðstæður. Nú eigi Blatter hins vegar erfitt með að sætta sig við tilvöru „tómleika“ án þeirra valda og fjármuna sem fylgi FIFA.

Blatter sækist eftir endurkjöri FIFA. Mótframbjóðandi hans er jórdanski prinsinn, …
Blatter sækist eftir endurkjöri FIFA. Mótframbjóðandi hans er jórdanski prinsinn, Ali bin al-Hussein. AFP
Fyrrverandi portúgalski knattspyrnumaðurinn Luis Figo bauð sig einnig fram um …
Fyrrverandi portúgalski knattspyrnumaðurinn Luis Figo bauð sig einnig fram um tíma, en hefur nú dregið framboðið til baka. AFP
Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, (fyrir miðri mynd), hefur gagnrýnt …
Michel Platini, forseti knattspyrnusambands Evrópu, (fyrir miðri mynd), hefur gagnrýnt Blatter og sakað hann um ósannindi. AFP
Blatter nýtur stuðnings meðal knattspyrnusamband í Afríku, Asíu og í …
Blatter nýtur stuðnings meðal knattspyrnusamband í Afríku, Asíu og í Ameríku. AFP
Blatter er ekki óumdeildur maður.
Blatter er ekki óumdeildur maður. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert