Blatter: Ég er ekki fullkominn

Sepp Blatter var hæstánægður að loknum forsetakosningum Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, á ársþingi sambandsins í Zürich. Blatter var þá endurkjörinn forseti eftir að mótframbjóðandinn Ali bin al-Hussein dró sig til baka að lokinni fyrstu umferð.

„Ég vil þakka Ali prins, hann var verðugur andstæðingur og fékk góða kosningu. Hann hefði getað haldið áfram og fengið kannski fleiri atkvæði, en þess í stað þakka ég ykkur fyrir að treysta mér fyrir næstu fjórum árum. Ég verð við stjórn á skipi sem kallast FIFA og mun sigla því örugglega í höfn,“ sagði Blatter, sem hlaut 133 atkvæði í fyrstu umferð en þurfti 140 til sigurs.

„Við stöndum frammi fyrir miklum vandamálum sem við þurfum að takast á við. Ég mun þó ekki hreyfa við heimsmeistarakeppnunum, þær eru of mikilvægar. Ég lofa því að þegar kjörtímabil mitt verður á enda mun ég skila af mér FIFA í mjög sterkri stöðu,“ sagði Blatter og talaði um leið fyrir því að fá fleiri konur inn í sambandið.

Öll spjót hafa beinst að honum síðustu daga eftir mikil hneykslismál innan raða FIFA þar sem háttsettir menn innan þess voru meðal annars handteknir. Margir hafa kallað eftir því að Blatter taki ábyrgð, en sjálfur segist hann ekkert hafa vitað hvað var í gangi.

„Ég er ekki fullkominn. Enginn er fullkominn, en við munum standa okkur vel saman það er ég viss um. Takk fyrir ykkar traust og stuðning. Áfram FIFA, áfram FIFA!“

Hinn 79 ára gamli Blatter hefur verið forseti sambandsins í sautján ár og hefur nú sitt fimmta kjörtímabil í embætti.

Sjá: Blatter heldur velli sem forseti FIFA

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert