Blatter heldur velli sem forseti FIFA

Sepp Blatter verður áfram forseti Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, en kosning fór fram á ársþingi sambandsins í Zürich. Mun hann sitja sitt fimmta kjörtímabil í embætti, en mótframbjóðandinn dró framboð sitt í baka nú rétt í þessu.

Kosið var á milli hans og jórdanska prinsins Ali bin al-Hussein. Blatter hlaut 139 atkvæði í fyrstu umferð en þurfti 140 til sigurs. Ali hlaut 73 atkvæði, en 2/3 hluta atkvæða þurfti til sigurs. Í annarri umferð hefði dugað að fá yfir helming atkvæða.

Í þann mund sem önnur umferð kosninganna var að hefjast steig Ali hins vegar á svið og segist hafa dregið sig úr kosningunum. Blatter heldur því velli sem forseti FIFA, fimmta kjörtímabilið í röð. Öll spjót hafa beinst að Blatter síðustu daga eftir þau miklu hneykslismál sem komu upp í vikunni og leiddi til handtöku margra háttsettra aðila innan FIFA.

„Þetta hefur verið yndisleg vegferð og ég vil þakka öllum þeim sem studdu mig og sýndu mér traust, en ég hef ákveðið að draga mig til baka úr kapphlaupinu. Ég óska ykkur alls hins besta,“ sagði Ali þegar hann tilkynnti ákvörðun sína.

Sepp Blatter.
Sepp Blatter. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert