Svíar Evrópumeistarar eftir vítakeppni

John Guidetti sækir að Jose Sa sem varði eina vítaspyrnu …
John Guidetti sækir að Jose Sa sem varði eina vítaspyrnu Svía í vítaspyrnukeppninni. Guidetti skoraði úr fyrstu spyrnu Svía. AFP

Svíþjóð varð í kvöld Evrópumeistari U21-landsliða karla í knattspyrnu í fyrsta sinn með sigri á Portúgal í vítaspyrnukeppni eftir markalausan leik og framlengingu.

Það var liðsfélagi Hauks Heiðars Haukssonar hjá AIK, markvörðurinn Patrik Carlgren, sem reyndist hetja Svía frammi fyrir frábærum stuðningsmönnum liðsins á vellinum í Prag. Hann varði þriðju vítaspyrnu Portúgala og svo þá síðustu, frá William Carvalho, og tryggði Svíum þar með sigurinn.

Liðin unnu stórsigra í undanúrslitunum, gegn Danmörku og Þýskalandi, en tókst ekki að skora í venjulegum leiktíma. Sergio Oliveira átti skot úr aukaspyrnu í þverslána á marki Svíþjóðar strax á 6. mínútu, en annars gerðist fátt í fyrri hálfleik. Í seinni hálfleik fengu bæði lið fín færi en tókst ekki að nýta þau og því þurfti að grípa til framlengingar.

Svíar hófu framlenginguna af krafti og framherjinn John Guidetti var aðgangsharður líkt og í venjulegum leiktíma. Það dró hins vegar af honum líkt og fleirum eftir því sem leið á. Hvorugu liðinu tókst að finna leiðina í markið og því tók við vítaspyrnukeppni, eins og áður segir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert