Sóknardúett til Mílanó

Carlos Bacca.
Carlos Bacca. AFP

Ítalska stórveldið AC Milan gekk í dag frá kaupum á tveimur sóknarmönnum, þeim Luiz Adriano og Carlos Bacca.

Adriano kemur frá Shakhtar Donetsk í Úkraínu, en hann hefur verið iðinn við kolann í austri síðustu ár. Hann á að baki fjóra landsleiki fyrir Brasilíu og var orðaður við mörg félög í sumar, meðal annars í ensku úrvalsdeildinni, en skrifaði að lokum undir fimm ára samning við Milan.

Bacca kemur frá Sevilla á Spáni, og er kaupverðið talið rúmlega tuttugu milljónir punda. Hann var einnig eftirsóttur, en á tíma sínum hjá Sevilla skoraði hann 49 mörk í 108 leikjum. Hann komst í fyrirsagnirnar á dögunum þegar hann var rekinn af velli í Suður-Ameríkubikarnum eftir viðskipti sín við Neymar þegar Brasilía og Kólumbía áttust við.

Bacca kom til Sevilla fyrir tveimur árum og vann Evrópudeildina tvívegis á þeim tíma. Hann skoraði 28 mörk á síðasta tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert