Fjögur Íslendingalið meðal 15 bestu

Sara Björk Gunnarsdóttir leikur í sjötta besta liði Evrópu samkvæmt …
Sara Björk Gunnarsdóttir leikur í sjötta besta liði Evrópu samkvæmt styrkleikalistanum. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Íslenskar landsliðskonur í knattspyrnu spila með fjórum af fimmtán bestu félagsliðum í Evrópu, samkvæmt nýjum styrkleikalista sem vefurinn spelare12.com hefur gefið út.

Listinn er gefinn út reglulega og sænsku meistararnir Rosengård, með Söru Björk Gunnarsdóttur í stóru hlutverki, eru að vanda í hópi þeirra bestu en síga nú reyndar niður um eitt sæti og eru taldir vera sjötta besta lið Evrópu í dag.

Lilleström frá Noregi, með Guðbjörgu Gunnarsdóttur í markinu, eru í 9. sæti sem er sama staða og síðast, Eskilstuna United, lið Glódísar Perlu Viggósdóttur, hefur tekið mikið stökk og er komið í 14. sæti, ofar en nokkru sinni fyrr, en ensku meistararnir Liverpool, með Katrínu Ómarsdóttur innanborðs, hafa fallið um tvö sæti og eru í því fimmtánda.

Evrópumeistarar Frankfurt taka toppsætið af fráfarandi meisturum Wolfsburg og þýsku meistararnir Bayern München, þar sem Dagný Brynjarsdóttir lék seinni hluta síðasta tímabils, eru í öðru sæti.

Þetta eru 20 bestu félagslið Evrópu í dag, samkvæmt listanum:

1. Frankfurt, Þýskalandi
2. Bayern München, Þýskalandi
3. Lyon, Frakklandi
4. París SG, Frakklandi
5. Wolfsburg, Þýskalandi
6. Rosengård, Svíþjóð
7. Turbine Potsdam, Þýskalandi
8. Montpellier, Frakklandi
9. Lilleström, Noregi
10. Chelsea, Englandi
11. Arsenal, Englandi
12. Linköping, Svíþjóð
13. Notts County, Englandi
14. Eskilstuna United, Svíþjóð
15. Liverpool, Englandi
16. Barcelona, Spáni
17. Guingamp, Frakklandi
18. Juvisy, Frakklandi
19. Bröndby, Danmörku
20. Zvezda-2005, Rússlandi

Gautaborg, lið Örnu Sifjar Ásgrímsdóttur, er síðan í 21. sæti en hefur fallið þangað úr tíunda sætinu.

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur og með Margréti Láru og Elísu Viðarsdætur, er í 30. sæti en var áður númer 23.

Avaldsnes í Noregi, lið Hólmfríðar Magnúsdóttur og Þórunnar Helgu Jónsdóttur, hækkar um 10 sæti og er í 32. sæti listans.

Klepp í Noregi, lið Katrínar Ásbjörnsdóttur og Jóns Páls Pálmasonar þjálfara, er í 56. sæti og hækkar sig verulega eftir að hafa verið númer 82 síðast.

Stjarnan og Breiðablik eru efst íslensku liðanna á listanum og eru í 53. og 54. sæti. Selfoss er í hópi 100 bestu í fyrsta sinn og er í 94. sæti en Þór/KA fellur af listanum eftir að hafa verið númer 92 síðast.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert