Síle meistari í fyrsta skipti

Alexis Sánchez reynir skot að marki Argentínu í leiknum í …
Alexis Sánchez reynir skot að marki Argentínu í leiknum í kvöld. Hann skoraði markið sem réð úrslitum í vítaspyrnukeppninni. AFP

Síle varð í kvöld Suður-Ameríkumeistari karla í knattspyrnu í fyrsta skipti með því að sigra Argentínu eftir vítaspyrnukeppni í úrslitaleiknum sem fram fór í Santiago í Síle.

Þetta var fimmti úrslitaleikur Sílebúa í keppninni en sá fyrsti frá árinu 1987. Argentína átti hinsvegar möguleika á að vinna keppnina í fimmtánda skipti og ná með því sigursælasta liðinu, Úrúgvæ.

Ekkert mark var skorað í venjulegum leiktíma eða í framlengingunni og þar með þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni.

Matiaz Fernandes og Lionel Messi skoruðu í fyrstu umferðinni, 1:1.

Arturo Vidal  skoraði fyrir Síle í 2. umferð en Gonzalo Higuaín skaut yfir mark Síle, 2:1.

Charles Aranguiz skoraði fyrir Síle í 3. umferð en Claudio Bravo varði frá Ever Banega og staðan var orðin 3:1.

Alexis Sánchez skoraði fyrir Síle í 4. umferð og tryggði liðinu meistaratitilinn, 4:1.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert