Veit ekki hvaðan þær fengu allan þennan kraft

Ensku konurnar með bronsverðlaunin í Edmonton í kvöld.
Ensku konurnar með bronsverðlaunin í Edmonton í kvöld. AFP

Mark Sampson, hinn 32 ára gamli Walesbúi sem þjálfar enska kvennalandsliðið í knattspyrnu, var að vonum kátur eftir sigurinn sæta á Þjóðverjum, 1:0, í leiknum um bronsverðlaunin á heimsmeistaramótinu í Edmonton í Kanada í kvöld.

Allt um leikinn.

„Ég veit ekki hvaðan þær fengu allan þennan kraft - þær kreistu út allt sem þær áttu. Stundum er lífið hræðilegt - virkilega erfitt. Þú færð kjaftshögg, og við fengum hrikalegt kjaftshögg um daginn. En við vildum sýna heiminum í dag hvað við gætum. Allir lenda í erfiðleikum og þá er ekki annað að gera en að standa aftur upp og halda áfram," sagði Sampson við BBC en England vann í kvöld sinn fyrsta sigur á Þýskalandi í 21 landsleik þjóðanna frá upphafi.

„Við verðskulduðum þennan sigur og við höfum farið í gegnum alla okkar leiki í keppninni með gífurlegri baráttu. Við mættum þremur af bestu liðum heims, Frakklandi, Japan og Þýskalandi. Þetta lið er ótrúlegt, og stuðningurinn sem við höfum fengið frá okkar fólki hefur verið ótrúlegur, magnaður - rosalegur. Hann hefur haft svo gífurlega mikið að segja," sagði Sampson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert